EN

Sinfóníuhljómsveit Íslands

Sinfóníuhljómsveit Íslands var stofnuð vorið 1950 og hefur um árabil verið í fremstu röð hljómsveita á Norðurlöndum. Hljómsveitin hefur fengið afbragðs dóma jafnt fyrir hljóðritanir sínar sem og tónleika heima og erlendis. Vorið 2011 varð Harpa, tónlistar- og ráðstefnuhús, heimili Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Sinfóníuhljómsveit Íslands var stofnuð vorið 1950 og hefur um langt árabil verið í fremstu röð hljómsveita á Norðurlöndum enda fengið afbragðs dóma jafnt fyrir hljóðritanir sínar sem og tónleika heima og erlendis. Vorið 2011 varð Harpa, tónlistar- og ráðstefnuhús, heimili Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hljómsveitin heldur um 100 tónleika á hverju starfsári, m.a. áskriftartónleika með heimsþekktum stjórnendum og einleikurum sem útvarpað er beint á Rás 1, fjölskyldu- og skólatónleika ásamt því að hljóðrita fyrir innlend og erlend útgáfufyrirtæki. Hljóðritanir hljómsveitarinnar hafa komið út m.a. á vegum Deutsche Grammophon, Chandos og BIS, og hafa hlotið fjölda viðurkenninga auk tilnefningar til Grammy-verðlauna fyrir besta hljómsveitardisk.

Hljómsveitin hefur komið fram á tónleikum við góðan orðstír m.a. í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Frakklandi og Japan. Í nóvember 2019 hélt hljómsveitin í velheppnaða tónleikaferð til Þýskalands og Austurríkis með Daníel Bjarnasyni aðalgestastjórnanda hljómsveitarinnar og Víkingi Heiðari Ólafssyni píanóleikara. Í febrúar 2020 hélt hljómsveitin síðan í glæsilega tónleikaferðalag um Bretland ásamt hljómsveitarstjóranum Yan Pascal Tortelier.

Finnski stjórnandinn Eva Ollikainen hefur gegnt stöðu aðalhljómsveitarstjóra og listræns stjórnanda frá árinu 2020. Osmo Vänskä er heiðursstjórnandi hljómsveitarinnar og Vladimir Ashkenazy er aðalheiðursstjórnandi hennar. Anna Þorvaldsdóttir tók við stöðu staðartónskálds í byrjun árs 2018, en áður hafði Daníel Bjarnason gegnt starfinu til þriggja ára en hann gegnir núna stöðu listamanns í samstarfi við hljómsveitina. Stephen Hough er einnig listamaður í samstarfi hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sæunn Þorsteinsdóttir er staðarlistamaður hljómsveitarinnar starfsárið 2022-23.