EN

Jónas Ásgeir // Gjörningaklúbburinn

Myrkir músíkdagar

Tryggðu þér besta verðið með 20% afslætti með því að kaupa miða á ferna tónleika eða fleiri – Regnbogakort
Dagsetning Staðsetning Verð
25. jan. 2024 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 3.000 - 5.200 kr.

Á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Myrkum músíkdögum 2024 fá tónleikagestir að upplifa nýstárlegt verk Gjörningaklúbbsins, Flökkusinfónu, þar sem tónlist, myndlist og kvikmyndalist renna saman í eitt. „Verkið býður upp
á abstrakt ferðalag þvert á tungumál þar sem flökkutaugin, samkenndartaug líkamans er virkjuð,“ segja listamennirnir um verkið, en sinfónían byggir á upplifun miðils á forsögu elstu hljóðfæra Sinfóníuhljómsveitar Íslands. „Í verkinu er allt skynróf líkamans virkjað á flakki um óræða heima á mörkum draums og veruleika.“ Gjörningaklúbburinn er skipaður myndlistarkonunum Eirúnu Sigurðardóttur og Jóní Jónsdóttur sem hafa starfað saman frá árinu 1996. Við gerð þessa verks fengu þær tónskáldin Unu Sveinbjarnardóttur og Ólaf Björn Ólafsson til liðs við sig ásamt einvala liði kvikmyndagerðarfólks, dansara, leikara og fimleikafólks.

Á fyrri hluta tónleikanna er íslensk samtímatónlist í aðalhlutverki. Jónas Ásgeir Ásgeirsson harmonikkuleikari vann Íslensku tónlistarverðlaunin sem flytjandi ársins síðasta vor, en hann hefur nú þegar vakið mikla athygli hér heima og erlendis fyrir virtúósísk tök sín á hljóðfærinu og framúrskarandi túlkun á nýrri tónlist. 

Hér leikur hann tvo ólíka og hrífandi konserta með hljómsveitinni, annars vegar verk Þuríðar Jónsdóttur, Installation around a Heart, frá árinu 2005 og hins vegar harmonikkukonsert Finns Karlssonar frá 2020, en hljóðritun Jónasar Ásgeirs og Elju kammersveitar á síðarnefnda konsertinum er meðal efnis á hljómplötu hans Fikta, sem nú síðast hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem plata ársins í sígildri og samtímatónlist. 

Tónleikarnir hefjast hins vegar á nýju verki Bergrúnar Snæbjörnsdóttur, Striations, sem pantað var af Sinfóníuhljómsveitinni í Birmingham og frumflutt af ungsveit hennar undir stjórn Ilans Volkovs snemma árs 2023. Verk Bergrúnar njóta nú vaxandi athygli og hafa meðal annars verið flutt af Fílharmóníusveitinni í Osló auk þess sem International Contemporary Ensemble í New York hefur pantað og leikið tónsmíðar hennar. Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur áður flutt verk Bergrúnar á Tectonics-hátíðinni 2014 og 15, auk þess sem hljómsveitin og Anna Þorvaldsdóttir pöntuðu verk hennar Skin in sem frumflutt var 2019.

Tónlistarhátíðin Myrkir músíkdagar eru ein elsta starfandi tónlistarhátíð landsins og einskonar uppskeruhátíð íslenskrar samtímatónlistar. Hátíðin var sett á fót árið 1980 og hefur Sinfóníuhljómsveit Íslands tekið þátt í henni frá upphafi. 

Sækja tónleikaskrá